Fríar fitusýrur í mjólk


Vandamál með há gildi frírra fitusýra í mjólk eru nokkuð algeng og getur verið mjög erfitt að ráða við þau og komast að hvað veldur. Stundum eru þetta viðvarandi vandamál í lengri tíma, en yfirleitt koma þau og fara og ástæðurnar geta verið margvíslegar. Mjólk með háu gildi FFS þýðir að mjólkin er með hátt innihald af lípasa, en lípasi er ensmín sem klýfur fituna í mjólkinni í fitusýrur og glýseról, það eykur á fríu fitusýrurnar og skemmir út frá sér.

Mjólkurfita er uppbyggð af fitusýrum sem eru bundnar saman í fitukúlur. Utan um þessar fitukúlur er himna. Þegar þessi himna rofnar fá fitusýrurnar að leika lausum hala. Himna þessi er mis sterk allt eftir hvar á mjaltaskeiðinu kýrnar eru. Á seinni hluta mjaltaskeiðsins, þegar er farið að minnka í kúnum, stækka fitukúlurnar í mjólkinni og verða þar af leiðandi einnig viðkvæmari og eiga auðveldara með að rofna. Gott er að fylgjast vel með niðurstöðum kýrsýna, en þar koma FFS gildin fram fyrir hverja og eina kú.

Mjólk úr kúm sem eru að auka nytina eftir burð getur líka verið með hátt FFS gildi, en oftast er þá ástæðan orkuskortur hjá kúnum. Ef kýr, sem eru tiltölulega nýbornar, fá ekki nægilegt magn eða hentuga tegund af kjarnfóðri eða komast ekki yfir að éta nægilegt magn gróffóðurs fara þær að ganga á eigin fituforða. Mjólk sem er búin til úr þess háttar orku er mjög viðkvæm og á fituhimnan utan um fitukúlurnar auðvelt með að rofna. Mikilvægi þess að hafa vel verkað gróffóður er augljóst, blautt gróffóður hefur neikvæð áhrif á FFS í mjólk af því að kýrnar komast ekki yfir að éta eins mikið af blautu heyi eins og þurru heyi, en einnig þarf að tryggja að ekki séu þrengsli við fóðurgang. Mikil fita í fóðri eykur oft líkurnar á að FFS hækki, því er mælt gegn að nota kjarnfóður með viðbættri fitu ef fitusýruvandamál eru á bænum.

Mikilvægt er að fylgjast með sjálfvirkum kjarnfóðurbásum. Mörg dæmi eru um að FFS gildi hafa hækkað í mjólk vegna þess að kjarnfóðurbásar skammti ekki rétt miðað við uppgefna fóðurtöflu. Rétt er að yfirfara þessa hluti mjög reglulega, það geta myndast stiflur í lögnum og vigtir geta bilað. Það getur svo orsakað það að kýrnar fái ekki það magn af kjarnfóðri sem búist er við að þær fái og orkuskortur fari þá að gera vart við sig.

Samhengi er á milli fituhlutfalls í mjólk og stærð fitukúla. Gott er að gefa kúnum E-vítamín aukalega þar sem E-vítamín styrkir frumuhimnur. E-vítamín geymist hinsvegar illa í heyjum.

Meirihluti mjólkur á Íslandi kemur frá mjaltaþjónabúum. Mjaltatíðni getur auðveldlega haft mikil áhrif á FFS í mjólk. Kýr sem eru að mjólka um eða undir 20-25 kg/dag eiga ekki að hafa mjaltaheimild nema á 9-10 klst fresti og þær kýr sem eru að mjólka meira en 25 kg/dag mega mæta til mjalta á 6-7 klst fresti. Of tíðar mjaltir geta aukið FFS gildi.

Algengasta orsökin fyrir háu FFS gildi í mjólk er tæknilegs eðlis, það er meðferð mjólkurinnar. Ef FFS gildin hækka allt í einu er ástæðan oft sú að mjólkin verður fyrir of harkalegri meðferð vegna til dæmis loftleka í mjaltakerfi. Fara þarf yfir mjólkurlagnir, pakkningar, mjólkurdælu o.s.frv. Einnig þarf að hugsa út í hvernig tankurinn meðhöndlar mjólkina, en ef vandamál eru með FFS gildi í mjólkinni, þá getur meðferð mjólkurinnar í tanknum gert það að verkum að FFS gildin hækki enn meir. Ef ekki er nægur kælivökvi á mjólkurtanknum eru líkur á því að mjólkin ofkælist og jafnvel frjósi, það veitir ekki á gott ef mjólkin er viðkvæm fyrir. Ef tankurinn er lengi að kæla mjólkina, þá eru líkur á því að hrært verði of lengi í mjólkinni í einu og er það sérstaklega slæmt ef lítið er í tanknum. Í þannig tilvikum þarf að sjálfsögðu að láta skoða tankinn, en það er líka æskilegt að nytháar kýr komi sem flestar í mjaltir strax eftir að búið er að tæma tankinn, þannig að þokkalegt magn komi í tankinn sem fyrst og þar með minnka líkurnar á of harkalegri meðferð í tanknum, en þetta á einungis við ef hráefni er viðkvæmt í grunninn. Ef mjaltaþjónninn er ekki fullnýttur getur verið sniðugt að loka fyrir aðgengi að honum í einhvern tíma (u.þ.b. 2 klst) eftir losun og þvott, þannig að komi röð í mjaltir og þokkalegt magn komi í tankinn á tiltölulega stuttum tíma. Einnig má bíða með að setja tankinn í gang þar til magnið í tanknum er komið upp á hálfan hrærispaða hið minnsta, þó þarf að passa að ekki líði of langur tími þar til tankurinn er settur í gang, annars er mikil hætta á að líftalan í mjólkinni hækki.

Tekið skal fram að tankurinn sjálfur er sjaldnast vandamálið þegar fitusýrur í mjólk eru annars vegar, það er að segja að tankurinn rýfur ekki fituhimnuna ef mjólkin í grunninn er í góðu lagi, en meðferð í tank getur aukið FFS gildin ef mjólkin er viðkvæm. Aðalatriðið er að fylgjast vel með niðurstöðum tank- og kýrsýna.

Þetta er ekki tæmandi listi, en algengustu vandamálin hafa hér verið nefnd. Gæðaráðgjafar Auðhumlu eru alltaf til í viðræður um þetta efni sem og annað er varðar mjólkurgæði.

Elin Nolsöe Grethardsdóttir

Gæðaráðgjafi Auðhumlu svf.

15. maí 2023

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242