Smitandi júgurbólga
Árlega er öll tankmjólk frá íslenskum kúabúum athuguð með tilliti til þeirra baktería sem geta fundist í fjósum. Þessi sýni eru kölluð B-sýni og er mjólkin þá PCR mæld, en PCR stendur fyrir Polymerase Chain Reaction.
PCR er viðurkennd aðferð sem er notuð á rannsóknarstofum til að magna upp afrit tiltekinna DNA-raða og gerir mönnum kleift að gera ítarlegar rannsóknir og finna út hvaða bakteríur eru til staðar. Mjólkurframleiðendur ættu að nýta sér niðurstöður B-sýna í bústjórninni, sér í lagi þeir sem eru í frumu- og líftöluvandræðum, en PCR gefur dýralæknum dýrmætar upplýsingar um hvaða lyf ætti að nota í baráttu við júgurbólgu.
Streptococcus agalactiae (Strep ag) er bakterían sem veldur smitandi júgurbólgu í kúahjörðum. Bakterían mælist afar sjaldan í B-sýnum á Íslandi - sem betur fer, að meðaltali eitt til tvö tilfelli á ári. Það er hins vegar grafalvarlegt mál að fá þessa bakteríu í kúahjörðina vegna þess hve smitandi hún er. Kýr sem eru smitaðar af Strep ag sýna yfirleitt engin augljós sjúkdómseinkenni, það er að segja að þær virðast nokkuð hressar og mjólkin lítur eðlilega út við fyrstu sýn. Frumutalan hækkar hjá þessum kúm, en yfirleitt ekki þannig að það komi strimlar úr júgranu og því getur verið erfitt að greina þessa tegund júgurbólgu. Skálapróf er gott tæki í þessari leit, önnur vísbending er lækkuð nyt hjá sýktum kúm.
Strept ag fjölgar sér í júgra en getur lifað á höndum, mjaltatækjum og utan á spenum. Strept ag smitast þess vegna á milli kúa með mjaltabúnaði og höndum mjaltamanna. Einnig geta mjólkurkálfar, sem fá að sjúga mæður sínar eða aðrar kýr, borið smit á milli kúa. Smitvarnir á búum sem hafa fengið staðfest Strept ag eru gríðarlega mikilvægar.
Þegar Strept ag uppgötvast þarf bóndi að hafa samband við sinn dýralækni án tafar og drífa í að taka kýrsýni úr öllum kúm á búinu.
Í kýrsýnakassanum er blað - neðst á því blaði er hægt að koma með athugasemdir til RM. Í þeim athugasemdadálk skal tekið fram að mæla þarf PRC í öllum kýrsýnum sem mælast með frumu yfir 300.000 frumur/ml. Líklegt þykir að sýktar kýr séu þetta háar í frumutölu, en skynsamlegt er þó að láta PCR mæla öll kýrsýni í öryggisskyni.
Meðhöndla þarf alla fjóra spena á sýktum kúm.
Endurtaka þarf PCR mælingu á kýrsýnum 3-4 vikum eftir að fyrstu sýnin frá greiningu hafa verið tekin. Þetta er nauðsynlegt til að geta gripið nýsýktar kýr og geta endurtekið meðhöndlun hjá öðrum ef þarf. Ef kýr eru í hjörðinni sem svara meðhöndlun illa, það er að bakteríumagnið hafi ekki minnkað á þessum 3-4 vikum, þá er besta ráðið að slátra þeim kúm. Gott ráð er einnig að láta PCR mæla mjólk úr kúm sem eru að koma inn eftir geldstöðu og úr kvígum sem eru að byrja í framleiðslu. Mælt er með að beðið sé um vikulega PCR mælingu á tanksýni í allt að þrjá mánuði eftir að meðhöndlun á kúm er lokið til að tryggja að búið sé að ráða niðurlögum sýkingarinnar.
Elin Nolsöe Grethardsdóttir
Gæðaráðgjafi Auðhumlu svf.
September 2025