Gæðakröfur til hrámjólkur

Samantekt

Samantekt á flokkunarmörkum, verðfellingum og A-greiðslum vegna hrámjólkur
Eftirfarandi samantekt er byggð á reglugerð nr. 1210/2016 um mjólk og mjólkurvörurmeð síðari breytingum og reglum verðlagsnefndar búvara  um flokkun mjólkur og verðfellingar vegna líftölu, frumutölu,
lyfjaleifa og frírra fitusýra sem gilda frá 1. jan. 2017 og samþykkt Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um greiðslur og flokkun í 1. flokk A frá 1. janúar 2010.

Líftala örvera

Mæling á líftölu örvera er framkvæmd í hverri viku. Niðurstöður mælinganna eru meðhöndlaðar á tvennan hátt. Annars vegar er reiknað *faldmeðaltal (áður kallað margfeldismeðaltal) reglubundinna mælinga síðustu tveggja mánaða skv. Mjólkurreglugerð þannig að nýtt faldmeðaltal reiknast mánaðarlega. Hins vegar er mjólkin flokkuð mánaðarlega miðað við niðurstöður mælinga hverrar viku skv. reglum verðlagsnefndar búvara.

Verðfelling vegna líftölu

Allar verðfellingar reiknast af afurðastöðvarverði. Fyrir hvert sýni, sem flokkast í 2. flokk, er vikuinnlegg verðfellt um 16%, fyrir hvert sýni sem flokkast í 3. flokk, er verðfellt um 36% og fyrir hvert sýni sem flokkast í 4. flokk, skal verðfellt um 60%. 

Flokkamörk eru eftirfarandi:

1. flokkur =< 80.000 einingar/ml Verð skv. lágmarksverði 1. flokks mjólkur
2. flokkur >   80.000 og =<200.000 einingar/ml   16% verðfelling af afurðastöðvaverði mjólkur
3. flokkur > 200.000 og =<500.000 einingar/ml  36% verðfelling af afurðastöðvaverði mjólkur 
4. flokkur > 500.000 einingar/ml   60% verðfelling af afurðastöðvaverði mjólkur
Frumutala

Mæling á frumutölu er framkvæmd í hverri viku. Niðurstöður mælinganna eru meðhöndlaðar á tvennan hátt. Annars vegar er reiknað faldmeðaltal reglubundinna mælinga síðustu þriggja mánaða skv. mjólkurreglugerð þannig að nýtt faldmeðaltal reiknast mánaðarlega. Hins vegar er mjólkin flokkuð mánaðarlega miðað við faldmeðaltal mælinga mánaðarins.

Sölubann vegna frumutölu

Ef þriggja mánaða faldmeðaltal fer yfir 400 þúsund frumur/ml sendir mjólkurstöð mjólkurframleiðanda tilkynningu um það. Hann fær frest í þrjá mánuði til að ná faldmeðaltalinu undir mörk aftur ella hættir mjólkurstöð að taka á móti mjólk frá viðkomandi framleiðanda uns faldmeðaltalið er aftur komið undir 400 þúsund. Takist framleiðanda ekki að ná faldmeðaltalinu niður fyrir 400 þúsund á þremur mánuðum getur hann þó sótt um tímabundna undanþágu til héraðsdýralæknis. Ef framleiðandi fær undanþágu má hann selja mjólk til mjólkurstöðvar tímabundið svo fremi sem síðasta reglubundna mæling sé alltaf undir 400 þúsund. Slík undanþága getur þó aldrei varað lengur en 60 daga í senn.

Verðfelling vegna frumutölu

Allar verðfellingar reiknast af afurðastöðvarverði. Verðfelling miðast við faldmeðaltal mánaðar og nú er verðfellt strax eftir fyrsta mánuð sem reiknast yfir mörkum 1. flokks. Þá er verðfellt um 5% vegna 2. flokks og 18% vegna 3. flokks. Ef mjólk flokkast í 3. flokk þrjá mánuði í röð verðfellist mjólkurmagn síðasta mánaðar um 36%. Ef mjólk flokkast í 3. flokk fjóra mánuði í röð eða fleiri verðfellist mjólkurmagn síðasta mánaðar um 54%. Athygli er vakin á því að flokkamörk vegna 3. flokks hafa verið lækkuð niður í 500.

Flokkamörk eru eftirfarandi:

1. flokkur =<400.000 frumur/ml Verð skv. lágmarksverði 1. flokks mjólkur
2. flokkur > 400.000 og =<500.000 frumur/ml    5% verðfelling af afurðastöðvaverði mjólkur
3. flokkur =<500.000 frumur/ml  18% verðfelling af afurðastöðvaverði mjólkur
Fríar fitusýrur

Flokkun og verðfellingar mjólkur vegna frírra fitusýra eru sem hér segir:

1. flokkur  =< 0.900 mmol/l  Verð skv. lágmarksverði, 1. flokks mjólk
2. flokkur   > 0,900 mmol/l og =< 1,600 mmol/l 5% verðfelling af afurðastöðvarverði mjólkur
3. flokkur   > 1,600 mmol/l  18% verðfelling af afurðastöðvarverði mjólkur
Lyfjaleifar

Öll mjólk er rannsökuð með tilliti til efna- og lyfjaleifa (sýklalyf, sýklaeyðandi og sýklaheftandi efni). Að minnsta kosti einu sinni í mánuði eru sýni frá hverjum framleiðanda rannsökuð með tilliti til efna- og lyfjaleifa.
Mjólk má ekki innihalda lyfjaleifar í meira magni en sem segir til um í reglugerð nr. 653/2001 um hámark dýralyfjaleifa í sláturafurðum, eggjum og mjólk, með síðari breytingum. Ef framangreind efni finnast í mjólk, sem send hefur verið til mjólkurstöðvar, er mjólkurframleiðanda og viðkomandi héraðsdýralækni tilkynnt það þegar í stað af mjólkurstöð. Slíkri mjólk er fargað í samráði við eftirlitsaðila, hún er ekki skráð inn í mjólkurstöð og innlegg viðkomandi viku verðfellt um 60% af afurðastöðvarverði. Ef um fleiri en eitt tilfelli með lyfjaleifum er að ræða innan sama mánaðar verðskerðist innlegg mánaðarins um 15% fyrir hvert tilfelli. Mjólkurstöð tekur ekki á móti mjólk frá viðkomandi framleiðanda fyrr en hann hefur sýnt fram á að hún innihaldi ekki framangreindar leifar.

Viðmiðanir við eftirlit mjólkur

Viðmiðanir sem notaðar eru til aðstoðar við eftirlit með mjólkurgæðum en ekki til verðfellingar

Hitaþolin líftala

Mörk fyrir 1. flokk eru upp að 5.000.

Kuldaþolin líftala

Mörk fyrir 1. flokk eru upp að 25.000.

Dvalargró loftfælinna baktería

Ef enginn vöxtur kemur eftir 72 klst. telst mjólkin fyrsta flokks.

Skynmat

Ef ekkert sýni hefur lyktar- eða bragðgalla telst mjólkin fyrsta flokks.

1. flokkur A: Gæðaálag fyrir úrvalsmjólk

Framleiðandi fær greitt aukalega 2%/  á innlagða mjólk í mánuðinum ef hún stenst allar kröfur um 1. flokk, auk þess sem: 

  1. Hámark frumutölu í mánuðinum sé  200 þúsund frumur/ml eða lægra - mælt og reiknað sem faldmeðaltal.
  2. Hámark líftölu í mánuðinum sé 20.000 ein/ml, mælt og reiknað sem beint meðaltal mánaðarins. 
  3. Hámark frírra frírra fitusýra sé 0,9 mmol/l, reiknað sem faldmeðaltal mánaðar.
Fyrirmyndarbúið

Frá og með 1. maí 2020 falla niður greiðslur vegna verkefnisins um Fyrirmyndarbú.

Frá og með 1. febrúar 2019 falla greiðslur fyrir Fyrirmyndarbúið niður ef líftölumörk eru 50.000 eða hærri (faldmeðaltal) .

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242