31. janúar 2008

Rekstrarstöðvunartrygging

Sameiginlegt bréf Auðhumlu og Sjóvár til félagsmanna Auðhumlu


Samkomulag við Sjóvá um hóprekstrarstöðvunartryggingu fyrir mjólkurframleiðendur

Ágæti  félagsmaður:

Með vátryggingarsamningi við Sjóvá sem tók gildi þann 10. janúar s.l. hefur Auðhumla keypt rekstrarstöðvunartryggingu til hagsbóta fyrir alla félagsmenn sína. Tilgangur vátryggingarinnar er að greiða í allt að 24 mánuði þann tekjumissi sem mjólkurframleiðendur  kunna að verða fyrir komi til bótaskylds tjóns úr brunatryggingu þeirra með þeim afleiðingum að röskun verður á framleiðslunni eða hún stöðvast alveg. Sama gildir ef óveðurstjón hafa slík áhrif á framleiðsluna.
Að frumkvæði Sjóvár voru teknar upp viðræður um þróun þessarar vátryggingalausnar fyrir alla kúabændur innan Auðhumlu, en félagið hefur í nokkur ár haft á boðstólum sérstaka rekstrarstöðvunarvernd fyrir mjólkurframleiðendur. Útbreiðsla vátryggingarinnar hefur ekki verið almenn og varð mikil umræða um þessar tegundir trygginga þegar stórbruni varð í Eyjafirði fyrir nokkru.
Af þessari ástæðu m.a. vill Auðhumla með vátryggingarsamningi þessum sem er algjör nýjung hér á landi tryggja enn frekar fjárhagslega stöðu félagsmanna verði þeir fyrir alvarlegu tjóni.
Með samningnum við Sjóvá hafa náðst hagstæðari iðgjöld en ella jafnframt því að öll framkvæmd verður einfaldari. Þar sem um hóptryggingu er að ræða mun Auðhumla koma fram gagnvart vátryggingarfélaginu fyrir hönd félagsmanna og veita því allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi framsetningu vátryggingarinnar og viðhald hennar.  

Komi til tjóns skal það tilkynnt Sjóvá beint en öll eftirfarandi samskipti vegna tjónsins skulu einnig vera milliliðalaus .
Nýir félagsmenn njóta vátryggingaverndar strax og þeir leggja inn mjólk í fyrsta skipti.

Þeir félagsmenn sem þegar hafa rekstrarstöðvunartryggingu í gildi og vilja njóta þess ávinnings sem samningur þessi býður verða sjálfir að segja vátryggingunni upp hjá sínu vátryggingarfélagi.
Í samningnum við Sjóvá kemur fram gagnkvæmur vilji til þess að þróa vátryggingarverndina frekar og láta hana hugsanlega ná til sjúkdóma.
Sjóvá mun jafnframt sem þátt í forvarnarstarfi hafa milligöngu um að veita aðgang að sérfræðingum í því skyni að veita faglega ráðgjöf um ráðstafanir í fjósum til þess að koma í veg fyrir tjón eða draga úr alvarleika þeirra.
Bæði Sjóvá og Auðhumla treysta því að með þessu samstarfi félaganna sé stigið ákveðið skref til hagsbóta fyrir mjólkurframleiðendur sem muni styrkja enn frekar undirstöður greinarinnar.

Frekari upplýsingar af hálfu Auðhumlu mun Garðar Eiríksson (569 2206 – gardare@ms.is) veita.  Nánari upplýsingar um samninginn við Sjóvá, um framkvæmd hans svo og um vátryggingarskilmála rekstrarstöðvunartryggingar má lesa á vefsíðum Sjóvár og Auðhumlu www.sjova.is og www.audhumla.is.


Sjá allar nánari upplýsingar undir flipanum Félagsmenn - Rekstrarstöðvunartrygging

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242