22. febrúar 2008

Nokkrar staðreyndir um mjólkurvörur

Töluverð umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu um mjólkurvörur og næringarefnainnihald þeirra.
Þar er m.a. gagnrýnd sykuríblöndun og notkun sætuefna og umfjöllunin hefur því miður oftar en ekki verið frekar óvönduð.

1. Í Manneldismarkmiðum fyrir Íslendinga er ráðlagt að fólk neyti 2-3 skammta af mjólkurvörum daglega (heimild: Lýðheilsustöð – áður Manneldisráð).

2. Yfir 80% af magni mjólkurvara sem Mjólkursamsalan selur eru hreinar vörur eða án viðbætts sykurs (hér er átt við neyslumjólk, sýrðar vörur, G-vörur).

3. Samkvæmt opinberum tölum notar íslenskur  mjólkuriðnaður um 3% af þeim sykri sem fluttur er inn til landsins árlega (heimild: Hagstofa Íslands).

4. Samkvæmt niðurstöðum nýlegra neyslukannana koma 6% af heildarsykurneyslu frá mjólkurvörum, en 94% sykurneyslunnar frá öðrum matvælum. (Heimild: Landskönnun á mataræði Íslendinga 2002 Manneldisráð 2003). 

5. Í gegnum tíðina hefur mjólkuriðnaðurinn leitast við að uppfylla síbreytilegar kröfur og óskir neytenda. Þegar umræðan var mikil um fituinnihald á árum áður kom til sögunnar mikið úrval af léttum vörum. Þegar umræða óx um sykur kom iðnaðurinn með vörur án viðbætts sykurs.  Til að svara kröfum neytenda nú, um vörur með minna sykurmagni og án sætuefna, munum við á næstunni stórauka framboð okkar af sykurskertum vörum.

6. Í sýrðum mjólkurafurðum er um helmingur náttúrulegur mjólkursykur en viðbættur sykur er fyrst og fremst settur í vöruna til að vinna á móti súrnum svo þær verði lystugri. Helsti næringarfræðilegi ókostur sykurs er að hann gefur orku en ekki næringarefni. Því má segja að þegar sykri er bætt í matvæli rýrast þau að næringarinnihaldi og mataræði sem ríkt er af sykurríkum afurðum á borð við sætindi og gosdrykki er því næringarsnauðara en ella. Hafa verður í huga að mjólk er næringarríkasta matvæli sem völ er á. Við að bæta sykri í mjólkurvöru rýrist hún aðeins að næringarinnihaldi en hún er engu að síður áfram afar holl og næringarrík.

7. Mjólkurvörur eru ein mikilvægasta uppspretta próteina úr fæðunni og innihalda fjölda næringarefna. Til að mynda gefur ein skyrdós fjórðung til þriðjung af daglegri þörf margra vítamína og steinefna. Þær eru mikilvægur kalkgjafi og góð uppspretta sinks, fosfórs, joðs, A-vítamíns og fjölmargra B-vítamína, svo eitthvað sé nefnt.

8. Talsvert framboð er á bragðbættum sýrðum vörum án viðbætts sykurs. Þar er notast við sætuefni, þ.á.m. aspartam. Aspartam er samsett úr tveimur amínósýrum, en amínósýrur eru grunneiningar próteina. Almennt hafa niðurstöður viðurkenndra vísindarannsókna ekki sýnt fram á skaðsemi neyslu aspartams í matvælum og er það viðurkennt og leyft til notkunar sem aukefni af heilbrigðisyfirvöldum um allan heim.

9. Til að fræðast betur um hollustu mjólkur og mjólkurvara eru menn hvattir til að skoða heimasíðu MS (www.ms.is). Undir flokknum „Hollusta“ og undir myndinni „Mundu eftir mjólkinni“ eru margar greinar sem taka ítarlega á þessum málaflokki.


Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242