10. júlí 2013

Mjólkureftirlit og rannsóknarstofa hjá MS frá 1. júlí

Mjólkureftirlit og rannsóknarstofa hjá MS frá 1. júlí

·         Liður í að styrkja gæðaeftirlit í mjólkurframleiðslu, iðnaði og dreifingu frá búi í búð

·         Mjólkursamsalan ræður dýralækni til stuðnings við mjólkureftirlitsmenn

·         Verður fylgt eftir með nýjum viðskiptaskilmálum við framleiðendur sem ætlað er að treysta enn frekar gæði framleiðslunnar

 

Gerð hefur verið breyting á skipulagi mjólkureftirlits- og rannsóknarstofu þannig að frá 1. júlí verður þessi starfsemi hluti af heildargæðakerfi Mjólkursamsölunnar.  Fram til þess dags var rekstrarþáttur starfseminnar vistaður hjá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, en fagleg stjórnun og starfsmannahald var undir umsjón gæðastjóra Mjólkursamsölunnar.

Nýlega var sett af stað heildarendurskoðun á gæðakerfum Mjólkursamsölunnar, sem ná frá umsjón afhendingu mjólkur á kúabúum í gegnum vinnsluþátt MS og allt út í verslanir og aðra vörudreifingu.  Skrefið, sem stigið var með skipulagsbreytingunum 1. Júlí, er liður í þessari endurskoðun.  Hún hefur í sjálfu sér ekki bein áhrif á framleiðendur að öðru leiti en því að stjórnsýsla á að verða skýrari.  Til stendur að auka innbyrðis samstarf mjólkureftirlitsmanna til að nýta í þágu bænda þá miklu þekkingu sem þeir búa yfir og ólíka menntun og bakgrunn.

Til að styrkja þetta starf hefur Mjólkursamsalan ráðið til starfa Jarle Reiersen, dýralækni sem hefur verið framleiðslustjóri Reykjagarðs, dótturfélags SS.   Hann verður beinn þátttakandi í mjólkureftirlitinu og samskiptum við framleiðendur.  Þekking hans á dýralækningum og gæðaeftirliti í matvælaframleiðslu munu verða mjólkureftirlitsmönnum mikill styrkur.  Hann verður leiðandi og virkur þátttakandi í því að móta nýjar gæðakröfur til mjólkurframleiðslunnar og fylgir eftir frávikum sem þar verða.  Loks er gert ráð fyrir því að hann þrói með mjólkureftirliti og mjólkurvinnslu ráðgjöf um betri framleiðsluhætti.

Jarle er búfræðingur og dýralæknir frá Noregi.  Hann hefur starfað þar sem dýralæknir, mest með kúabændum, bæði í fullu starfi og í sumarafleysingum allt til dagsins í dag. Jarle var dýralæknir alifuglasjúkdóma hjá MAST um 13 ára skeið og tók þátt í að byggja upp ný eftirlits og gæðakerfi í alifuglaræktinni.  Frá 2007 hefur hann verið framleiðslustóri Reykjagarðs og verið ábyrgur fyrir innleiðingu gæðastaðla þar sem markvisst hafa bætt árangur.  Jarle hefur starfað sem afleysingadýralæknir í Noregi á sumrin flest ár frá 1995 og mest unnið þar með kúabændum sem fyrr segir.

Íslenskir mjólkurframleiðendur hafa náð verulegum árangri í bættum gæðum undanfarna áratugi. Umræða um nýtt átak á þessu sviði hófst á fyrri hluta árs 2012 á deildafundum Auðhumlu þar sem Egill Sigurðsson, stjórnarformaður félagsins, vakti máls á því að dýrmætasta eign félagsmanna Auðhumlu væri það mikla traust sem neytendur hér bera til íslenskrar mjólkurframleiðslu. Hann áréttaði að mikilvægt væri að styrkja þetta traust með markvissum vinnubrögðum.

Það má segja að tvennt hafi undirstrikað mikilvægi þess að skerpa enn á þessari vinnu. Annars vegar er breytt reglugerðarumhverfi matvælavinnslunnar. Með yfirtöku evrópureglugerða hefur ábyrgð verið velt yfir á matvælaframleiðendur og ábyrgð á öryggi framleiðsluvara er ekki lengur hjá eftirlitsaðilum.  Reglugerðir kveða minna á um að hlutina eigi að gera með ákveðnum hætti og meira um ábyrgð vinnsluaðila.  Á ábyrgð matvælaframleiðenda sjálfra að tryggja matvælaöryggi framleiðsluvara sinna með því að sannreyna að vörur frá birgjum séu í lagi þ.e. bæði hráefni og umbúðir, að birgjar framleiði við viðunandi aðstæður og með því að tryggja að hætta á mengun sé lágmörkuð eða útilokuð.

Hins vegar komu upp mál tveggja framleiðenda, sem misstu söluleyfi í vetur.  Viðbrögð neytenda við þeirri umræðu undirstrikaði mikilvægi þess að fyriræki bænda hefðu skýrar reglur og gerðu kröfur um aðbúnað og aðstöðu auk þeirra krafna sem gerðar eru um hámarkslíftölu og gerlatölu.

Auðhumla hefur því unnið að því að styrkja gæðastarf og gæðakröfur með framangreindum skipulagsbreytingum og með því að undirbúa nýja viðskiptaskilmála milli framleiðenda og vinnslunnar þar sem gert er ráð fyrir auknum kröfum um aðbúnað og aðstöðu. Í þessari vinnu hafa Auðhumla og SAM haft náið samráð og samvinnu við Landssamtök kúabænda.  Gert er ráð fyrir að fyrstu drög nýrra viðskiptaskilmála verði tilbúin í haust og verði kynnt á haustfundi fulltrúaráðs Auðhumlu.  Markmiðið er að hafa kröfur sem fram koma í slíkum skilmálum skýrar og einfaldar og gefa framleiðendum hæfilegan aðlögunartíma að því sem gæti orðið íþyngjandi. Meðal annars er horft til þeirrar vinnu að gæðamálum sem fram hefur farið í Skandinavíu undanfarin ár.  

Framtíð íslenskrar mjólkurframleiðslu byggir í senn á aukinni hagkvæmni og sterkri gæðaímynd. Ef sótt verður að íslenskum framleiðendum með aukinn innflutning er sterk gæðaímynd og traust neytenda besta vörnin. Skilningur framleiðenda á þessum meginþáttum kom  skýrt fram á fulltrúafundi Auðhumlu í Reykjavík síðastliðið haust og meðal annars í því ljósi hefur þessi vinna verið leidd áfram.  

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242