9. júlí 2025

Mjólkurafreikningar og reikningsyfirlit í tölvupósti

Mjólkurafreikningar júnímánaðar ásamt reikningsyfirliti hafa nú verið sendir í tölvupósti til allra mjólkurframleiðenda innan Auðhumlu svf. Hver og einn mjólkurframleiðandi ætti nú að hafa fengið tvo tölvupósta frá Auðhumlu svf. (auðkennt sem "mjolk") þar sem annar tölvupósturinn inniheldur mjólkurafreikning júnímánaðar og hinn tölvupósturinn reikningsyfirlit. 

Um er að ræða mikilvægan áfanga á lengri leið við upptöku nýs tölvukerfis hjá Auðhumlu svf. Auðhumla svf. mun nú framvegis senda öllum mjólkurframleiðendum mjólkurafreikninga liðins mánaðar ásamt reikningsyfirliti í tölvupósti á svipuðum tíma og uppgjör mánaðarins fer fram 10. dag mánaðarins á eftir. Mjólkurframleiðendur geta síðan áframsent tölvupóstana til bókarans síns jafnóðum ef vill. Þegar nýja tölvukerfið er komið í fulla virkni síðar á árinu munu mjólkurframleiðendur og bókarar jafnframt geta nálgast mjólkurafreikninga og reikningsyfirlit á "Mínum síðum" á nýjum bændavef Auðhumlu sem er í smíðum samhliða nýju tölvukerfi.

Auðhumla svf. hefur hér með hætt að senda mjólkurafreikninga og reikningsyfirlit með landpósti.

Mjólkurafreikningurinn hefur jafnframt fengið dálitla andlitslyftingu þar sem innan rammans sem nú er á afreikningnum má sjá þær verðbreytingar frá grundvallarverði sem viðkomandi framleiðandi fær. Dálkurinn "Afurðastöðvarverð" fyrir framan ramman er þannig verðið á innlögðu magni x grundvallarefnainnihald mjólkurinnar, 4,23% fita og 3,38% prótein. Ef innlögð mjólk er efnameiri en grundvallarmjólkin eru plústölur í viðkomandi dálkum innan rammans en mínustölur ef mjólkin er efnaminni en grundvallarmjólkin. Reitirnir eru síðan auðir ef efnainnihaldið er á pari við grundvallarmjólkina. Ef viðkomandi framleiðandi fær gæðaálag vegna úrvalsmjólkur (2,0%) kemur jafnframt plústala í dálkinn "Gæða" en ef viðkomandi fær verðfellingu vegna gæða kemur mínustala í sama dálk. Ef innlögð mjólk er hvorki af úrvalsmjólkurgæðum eða verðfelld (sem sagt 1. flokks mjólk) er dálkurinn auður líkt og dálkurinn "Gæði% upp/niður" fyrir framan rammann. Þeir mjólkurframleiðendur sem eru með lífræna vottun og leggja mjólkina inn sem slíka eru síðan þeir einu sem sjá einhverjar tölur í dálknum "Lífrænt". Dálkurinn "Upphæð" er síðan afurðastöðvarverð grundvallarmjólkur að viðbættum eða frádregnum tölunum í rammanum eftir því sem við á.

Reikningsyfirlitið er hefðbundið nema það inniheldur nú allar færslur viðkomandi viðskiptamanns frá upphafi ársins en ekki eingöngu í liðnum mánuði líkt og sent hefur verið út hingað til samhliða mjólkurafreikningi. Færslur ársins á viðskiptareikningi viðkomandi hjá Auðhumlu svf. munu þannig bætast við útsent reikningsyfirlit frá mánuði til mánaðar yfir árið sem ætti að auðvelda mjólkurframleiðendum og bókurum að halda utan um stöðu viðskiptareikningsins.

Við vonum að mjólkurframleiðendur fagni þessu framfaraskrefi með okkur!

   

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242