15. apríl 2008

Metframleiðsla mjólkur en erfitt rekstrarumhverfi

Fram kom á aðalfundi Auðhumlu svf, föstudaginn 11. apríl 2008, að á árinu 2007 hafi aldrei hefur verið framleitt jafn mikið af mjólk á landinu og á síðasta ári eða 124 milljónir lítra. Þar af komu 112 milljónir lítra eða 91% mjólkurinnar frá framleiðendum Auðhumlu. Aukning var á sölu mjólkur, hvort heldur sem miðað er við próteinmagn eða fitu.

Þrátt fyrir framleiðslu- og söluaukningu var rekstrarumhverfið erfitt fyrir mjólkuriðnaðinn á síðasta ári. Heildarsala Auðhumlu nam 12,6 milljörðum króna á síðasta ári og var rekstrartap 588 milljónir króna en að teknu tilliti til fjármagnstekna var tap ársins 196 milljónir króna. Þetta var meðal annars vegna þess að iðnaðurinn tók á sig verðstöðvun á mjólk og mjólkurafurðum á síðasta ári sem kostaði mjólkuriðnaðinn um einn milljarð króna. Efnahagur félagsins er traustur en eigið fé samstæðunnar var 8.206 milljónir króna um síðastliðin áramót og niðurstaða efnahagsreiknings var 12.131 milljón króna þannig að eiginfjárhlutfallið er 68%.

Rekstur Auðhumlu er á þremur sviðum. Í fyrsta lagi er það rekstur Mjólkursamsölunnar sem er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins í landinu, í öðru lagi er það fasteignarekstur og í þriðja lagi fjármál og fjárfestingar.

Rekstur Mjólkursamölunnar er afgerandi í rekstri samstæðunnar en Mjólkursamsalan hóf starfsemi í byrjun síðasta árs þegar rekstur Osta- og smjörsölunnar, Norðurmjólkur og hluti af starfsemi MS var sameinaður í eitt félag til að ná fram umtalsverðri hagræðingu til hagsbóta fyrir neytendur og mjólkurframleiðendur. „Skipulag og umgjörð mjólkuriðnaðarins hefur því tekið stakkaskiptum. Breytingarnar hafa gengið vel fyrir sig og um þær hefur ríkt víðtæk sátt. Þegar hefur umtalsverð hagræðing náðst og búið er að undirbúa mörg hagræðingarverkefni á sviði sölu, dreifingar og framleiðslu sem á að gera okkur kleift að ná fram verulegri hagræðingu á þessu og næsta ári. Rekstrarskilyrði mjólkuriðnaðarins hafa versnað mikið á undanförnum mánuðum og er því mjög knýjandi að við náum fram allri þeirri hagræðingu sem er möguleg með tilkomu Mjólkursamsölunnar,” sagði Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Auðhumlu, á aðalfundi félagsins.

Tilraunir með útflutning á mjólkurafurðum hafa gengið ágætlega á undanförnum árum og er lögð áhersla á að auka magn skyrs í þeim útflutningi. Á síðasta ári var útflutningur skyrs 128 tonn en heildarútflutningur allra mjólkurafurða var ríflega 1.000 tonn til samanburðar. Skyr er nú selt á Washington svæðinu, í New York og Boston, í Englandi og Luxemborg. „Það tekur töluverðan tíma að byggja upp markaði fyrir afurðir okkar erlendis. Byrjunin hefur lofað góðu og við eigum að leggja áherslu á að byggja upp enn frekari markaði fyrir skyr erlendis. Það er spennandi að vinna meira inn á Evrópumarkað en við höfum gert. Gengi evrunnar er sterkt og tollfrjálsir kvótar fyrir smjör og skyr til Evrópu, sem samið var um í fyrra, hjálpa okkur í markaðsfærslunni á þessu markaðssvæði,” segir Guðbrandur Sigurðsson.

Á aðalfundinum varð sú breyting á stjórn félagsins að úr stjórn gekk Haraldur Þórarinsson, Laugardælum, en í staðinn var kosinn Björn Harðarson, Holti. Stjórn félagsins skipa í dag Egill Sigurðsson, Erlingur Teitsson, Guðrún Sigurjónsdóttir, Stefán Magnússon, Birna Þorsteinsdóttir, Hörður Grímsson og Björn Harðarson.

Að loknum aðalfundi skipti stjórn félagsins með sér verkum. Stjórnarformaður er Egill Sigurðsson, varaformaður stjórnar er Erlingur Teitsson og ritari stjórnar er Guðrún Sigurjónsdóttir.

Nánari upplýsingar veitir:
Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Auðhumlu, sími 869 0122.

Ársskýrslu Auðhumlu svf 2007 má nálgast á pdf formi hér

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242