22. febrúar 2008

Met í innvigtun mjólkur hjá MS Akureyri á árinu 2007

Innvegin mjólk hjá MS Akureyri nam  á árinu 2007 alls 31.795.000 lítrum og hefur aldrei í sögu samlagsins á Akureyri verið tekið við svo miklu magni til vinnslu. Aukningin milli ára nam tæplega 9%, þrátt fyrir að framleiðendum á svæðinu hafi fækkað um tvo á sama tíma. Í árslok 2007 voru þeir 167 talsins. Sigurður Rúnar Friðjónsson, mjólkurbússtjóri, segir margar skýringar á þessari auknu framleiðslu bænda og sérstaklega sé ánægjulegt að afkoma mjólkurframleiðenda hafi farið batnandi á síðustu árum.
„Í fyrsta lagi hafa bændur verið hvattir til aukinnar framleiðslu á allra síðustu árum og upp á síðkastið hefur fengist gott verð í útflutningi á mjólkurvörum úr umframframleiðslunni. Ástæðan er sú að verð á mjólkurvörum í löndunum í kringum okkur hefur farið verulega hækkandi og flest sem bendir til að sú staða haldist áfram. Á þann hátt má segja að verðhækkanirnar erlendis hafi skilað sér í ákveðnu formi til mjólkurframleiðenda hér á landi nú þegar,“ segir Sigurður, en bætir við að framleiðsluaukningin milli ára eigi sér fleiri skýringar.
„Það má líka líta á þessa þróun sem ávöxt af faglegri vinnu mjólkurframleiðenda því við sjáum skýrt og greinilega að framþróun hefur orðið í fóðrun gripanna, mikil fjárfesting hefur átt sér stað í framleiðsluaðstöðunni, fóðurverkun á búunum, sem og mjaltatækninni. Og búin eru að stækka, þó fækkun framleiðenda milli ára sé óveruleg. Allt endurspeglar þetta betri afkomu búanna,“ segir Sigurður Rúnar.

Mikil gæði íslenskrar mjólkur

Aðspurður segir Sigurður Rúnar óhætt að fullyrða að í samanburði við önnur lönd séu gæði íslenskrar mjólkur mikil. Þá er sérstaklega átt við frumutölu og sá þáttur helst í hendur við gæði í úrvinnslunni, allt á borð neytandans.
„Á landsvísu eru gæðin mjög mikil og hér á Eyjafjarðarsvæðinu stöndum við vel að vígi – státum af lægstu frumutölu yfir landið á síðasta ári. Það er auðvitað að þakka gæðastarfi bændanna og samstarfi eftirlitsmanna okkar við bændur,“ segir Sigurður Rúnar. „Munur milli samlaga hvað frumutöluna varðar er raunar mjög lítill og undirstrikar hversu vel við erum sett gæðalega í mjólkurframleiðslunni hér á landi. En engu að síður erum við stolt af árangrinum á okkar svæði.“

Ostarnir stöðugt í sókn

Þó útflutningur hafi aukist á árinu 2007 þá hefur aukning á innanlandsmarkaði líka mætt þessari þróun í mjólkurframleiðslunni. „Ferskmjólkin hefur átt í harðri baráttu á markaðnum síðustu 15-20 árin og reyndar er ánægjulegt að samdráttur í sölu ferskmjólkur milli ára er minni en oft áður. Hins vegar sjáum við góða aukningu í viðbiti, svo sem smjöri og sömuleiðis er ágæt aukning í ostasölunni. Fólk er alltaf að læra meira og meira inn á ostaneysluna, auk þess sem ostur kemur sífellt sterkari inn í matargerðina og þetta skýrir öðru fremur hvers vegna osturinn er í góðri sókn. En hvað ferskmjólkina varðar þá hefur hún um árabil átt í harðri baráttu við safana og gosdrykkina,“ segir Sigurður Rúnar.

Margt að gerast hjá MS Akureyri á árinu 2008

Sigurður Rúnar segir ómögulegt að spá fyrir um það nú í byrjun árs hvort metið í innvigtun mjólkur hjá MS Akureyri verði slegið aftur í ár. Því ráði ýmsir utanaðkomandi þættir. Nokkrar breytingar verða hins vegar innanhúss í samlaginu á Akureyri því senn flyst öll smurostaframleiðsla frá Reykjavík til Akureyrar. Sömuleiðis tekur samlagið við allri dreifingu á mjólkurvörum á Austurlandi síðar í vetur. Sú breyting útheimtir m.a. stækkun á kæliaðstöðu, auk þess sem ný og öflugri pökkunarlína fyrir ferskmjólk verður sett upp þannig að unnt verði að mæta verulega auknu þjónustusvæði í dagvörunni. Að sögn Sigurðar er um verulegar fjárfestingar að ræða vegna þessara breytinga og eru framkvæmdir þegar hafnar.

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242