31. mars 2023

Leiðréttingar vegna líftölu

Ágæti mjólkurframleiðandi,

Eins og yfirlýsing Auðhumlu svf. frá 15. mars sl. gaf til kynna eru líftölumælingar RM nú ekki notaðar til verðfellingar á hrámjólk á meðan vafi leikur á réttmæti niðurstaðna í núverandi lánstæki.

Verðfellingar/leiðréttingar
Gæðaráðgjafar Auðhumlu svf. hafa nú farið yfir líftölumælingar síðustu vikna og hefur sú yfirferð leitt í ljós að vafi leikur á réttmæti niðurstaðna frá og með 3ju viku janúarmánaðar (16. jan.) Svo virðist sem mælingartækið hafi á þeim tíma farið út fyrir hefðbundin fasa og sýnt heilt yfir heldur hærri gildi en vaninn var. Auðhumla svf. hefur því framkvæmt nýtt uppgjör til þeirra mjólkurframleiðenda sem hafa fengið verðfellingar vegna líftölu frá og með þeim tíma. Í slíku uppgjöri er nauðsynlegt að kreditfæra fyrra uppgjör þar sem verðfellt var (kreditreikningur) og gera síðan nýjan reikning þar sem greitt er fullt afurðaverð fyrir hrámjólkina. Ekki verður verðfellt fyrir hrámjólk á grundvelli líftölumælinga fyrr en góð vissa er fyrir réttmæti niðurstaðnanna.

Greiðslur vegna þessara leiðréttinga verða greiddar út 11. apríl 2023, samhliða greiðslum fyrir mars innleggið.

Athugið að eingöngu eru bakfærðar verðfellingar vegna líftölumælinga. Verðfellingar vegna frumutölu og/eða frírra fitusýra standa óbreyttar.

Úrvalsmjólk
Að sama skapi hefur verið tekin ákvörðun um að mörk vegna greiðslu úrvalsmjólkur á grundvelli líftölu verði færð tímabundið úr 20.000 ein/ml í 30.000 ein/ml á meðan vafi leikur á réttmæti niðurstaðna. Talið er öruggt að möguleg skekkja liggi nokkuð undir 30.000 ein/ml mörkunum og að þessi tímabundna breyting nái að grípa alla þá framleiðendur sem sannarlega framleiða úrvalsmjólk.

Auðhumla svf. biðst afsökunar á þeim óþægindum sem þessi vafi á réttmæti líftölumælinga hefur valdið. Horft er til þess að bændur njóti vafans sem hér er uppi. Eftir sem áður eru líftölumælingar áfram birtar til leiðbeininga um stöðu og þróun á líftölunni því sannarlega gefa þær réttmætar vísbendingar um þróun líftölunnar á þínu búi þó Auðhumla svf. treysti sér ekki til að skerða greiðslur til bænda á grundvelli þeirra eins og sakir standa.

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242