Íslensk mjólkurframleiðsla 2025
Innvegin mjólk í mjólkurafurðastöðvar nam alls tæplega 156,9 milljónir lítra á árinu 2025 samanborið við tæplega 153,7 milljónir lítra árið 2024. Um er að ræða mesta mjólkurmagn sem mjólkurafurðastöðvar hafa tekið á móti nokkru sinni á einu almanaksári. Greiðslumark ársins 2025 var 152,0 milljónir lítra sem þýðir að innvegin mjólk umfram greiðslumark, svo kölluð „umframmjólk“ er u.þ.b. 4,9 milljónir lítra árið 2025, samanborið við tæplega 2,2 milljónir lítra árið 2024. Alls framleiddu og lögðu 263 mjólkurframleiðendur inn umframmjólk á árinu 2025 sem er svipaður fjöldi og undanfarin ár þó mjólkurmagnið sé talsvert meira.
Uppgjörsvinna við útjöfnun á greiðslumarki ársins 2025 tekur nú við, annars vegar hjá atvinnuvegaráðuneytinu hvað varðar beingreiðslur og hins vegar hjá mjólkurafurðastöðvunum hvað varðar afurðastöðvarverð. Það þýðir að þeir mjólkurframleiðendur sem framleiddu mjólk umfram greiðslumark sitt geta átt von á því að fá einhvern hluta hennar greidda fullu verði, bæði hvað varðar beingreiðslur og afurðastöðvarverð þar sem hluti mjólkurframleiðenda náði ekki að framleiða allt greiðslumark sitt. Væntanlega verður hægt að ljúka þessari uppgjörsvinnu nú í janúar og gera upp við mjólkurframleiðendur í febrúar líkt og undanfarin ár.
Sala á mjólk hjá mjólkurvinnslustöðvum hefur jafnframt gengið vel á árinu og verið í ágætu jafnvægi við innvegna mjólk. Þar sem greiðslumark undanfarinna ára hefur miðaðst við áætlaða innanlandsþörf fyrir mjólkurfitu hefur þurft að flytja út þann hluta mjólkurpróteins sem er umfram innanlandsþarfir. Það hefur verið gert í formi skyrs á undanförnum árum og hefur sala á skyri erlendis gengið mjög vel og nú þegar búið að flytja út umframbirgðir próteins ársins 2025 og hluta af umframmjólkinni sömuleiðis. Það verð sem afurðastöðvarnar lofa að greiða bændum fyrir umframmjólk ræðst af því skilaverði sem fæst fyrir skyrið erlendis.
Þróun mjólkurframleiðslunnar
Mjólkurframleiðendum á Íslandi heldur áfram að fækka en þeir sem halda áfram í mjólkurframleiðslunni stækka sín bú. Um áramótin 2025/2026 eru starfandi 445 kúabú á Íslandi en til samanburðar var fjöldi mjólkurframleiðenda á Íslandi um 1.000 um síðustu aldamót. Mjólkurframleiðendum hefur því fækkað um ríflega helming á 25 árum. Á sama tíma hefur meðalkúabúið á Íslandi farið úr því að leggja inn í mjólkurafurðastöð rétt um 100.000 lítra í það að leggja inn ríflega 330.000 lítra. Meðalkúabúið á Íslandi hefur því ríflega þrefaldast að stærð á þessum aldarfjórðungi. Á þessum tíma hefur aukin sjálfvirkni breytt störfum bænda töluvert og gert þeim kleyft að framleiða mun meira mjólkurmagn án þess að fjölga hafi þurft starfsfólki að sama skapi. Mest munar trúlega um mjaltaþjónana sem íslenskir mjólkurframleiðendur hafa verið mjög duglegir að taka í þjónustu sína. Fyrsti mjaltaþjónninn var einmitt tekin í notkun á Íslandi árið 1999 og er nú svo komið að ríflega helmingur mjólkurframleiðenda hefur slík tæki í þjónustu sinni og rétt um 80% af innveginni mjólk er mjólkuð af mjaltaþjóni.
Auðhumla
Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.
Lesa meiraGæðaráðgjafar
Hans Egilsson: Sími 861-4775
Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772
Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397
Ásgeir Símonarson: Sími 836 4770
RM rannsókn: Sími 450-1242

