25. apríl 2016

Fréttir af aðalfundi

Föstudaginn 15. Apríl 2016 var aðalfundur Auðhumlu svf. haldinn í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Vegna seinkunar á flugi hófst fundurinn ekki fyrr en upp úr kl. 11.30 með ræðu stjórnarformanns Egils Sigurðssonar. Egill nefndi í ræðu sinni að kúabændur stæðu nú frammi fyrir veigameiri verkefnum en verið hafi um langa hríð. Þessi verkefni má rekja til nokkurra stórra áhrifaþátta sem valdið hafa sviptingum í afkomu kúabænda og vinnslufyrirtækja þeirra síðustu misseri. Í fyrsta lagi sveiflur á markaði. Hér var fituskortur árið 2013 en síðan jókst framleiðslan sem leiddi til offramboðs jafnt á fitu sem próteini. Bændur hafa notið góðs af þessu en áhrifin hafa verið neikvæð fyrir MS og Auðhumlu.

Þá nefndi Egill annan áhrifaþátt, framþróun í mjaltatækni og fóðuröflun. Þessi þróun skapar mikla hagræðingarmöguleika en er dýr og hagkvæmni háð stóraukinni bústærð. Ný tækni kallar á stækkun búa og um leið fækkun þeirra. Áhrif þessara tveggja þátta, eftirspurnarbreytinga og tæknibreytinga, koma fram með ólíkum hætti í starfsemi bænda og afurðafyrirtækjanna. Bændur, einkum þeir sem framleitt hafa umframmjólk hafa borið meira úr býtum en ella, en vinnslufyrirtækin hafa tekið á sig afkomutap.  

Egill nefndi einnig þriðja þáttinn sem er útflutningur vöru, hugvits og/eða þjónustu, með uppbyggingu á alþjóðlegum skyrmarkaði á undanförnum 6 árum. Framundan er endurmat á þessari starfsemi með það í huga að auka enn hlutdeild íslenskra kúabænda í alþjóðlegum skyrmarkaði.

Þá fór Egill yfir ástæður þess að stjórn Auðhumlu hefur ákveðið sérstakt gjald kr. 20.- á hvern lítra af umframmjólk sem tekur gildi frá 1. Júlí nk. Þetta hafi ekki verið auðveld ákvörðun en nauðsynleg við núverandi aðstæður, hrun á heimsmarkaðverði og erfiðleika í vinnslunni vegna mikils mjólkurmagns.

Egill fór einnig nokkrum orðum um nýgerða búvörusamninga og hvað það stærsta mál ársins fyrir alla kúabændur. Þar væri margir þættir óunnir s.s verðlagningarmál og fl. Stofnaður hefur verið 7 manna starfshópur til að vinna að útfærslu er varðar mjólkuriðnaðinn. Annað mál er mun hafa veruleg áhrif er ný aðbúnaðarreglugerð sem taka mun gildi 1. Október 2016. Líkur eru á því að milli 8-10 þúsund básar í fjósum landsins standist ekki þau viðmið um aðbúnað sem sett eru í reglugerðinni, eða um þriðjungur bása á landsvísu.

Í máli Ara Edwalds forstjóra Mjólkursamsölunnar kom einnig fram að hið mikla mjólkurmagn veldur miklu álagi á vinnslu og flutningakerfi og bilanir í framleiðslutækjum geta auðveldlega sett allt úr skorðum. Ari gat þess að mikið mjólkurmagn væri helsta ástæða rekstrartaps MS á liðnu ári auk þess sem kjarasamningshækkanir og dráttur á verðlagningu vægju þungt. Garðar Eiríksson, framkvæmdastjóri Auðhumlu fór yfir samstæðureikning ársins 2015, en tap samstæðunar nam 104 milljónum króna.

Miklar umræður urðu um skýrslu stjórnar, skýrslu forstjóra MS og framlagðan ársreikning. Ársreikningur var samþykktur og ný stjórn Auðhumlu var kjörin á fundinum en hana skipa:

Egill Sigurðsson, Berustöðum, formaður
Jóhannes Torfason, Torfalæk, varaformaður
Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum, ritari
Elín M. Stefánsdóttir, Fellshlíð, meðstjórnandi
Jóhanna Hreinsdóttir, Káraneskoti, meðstjórnandi
Ásvaldur Þormóðsson, Stóru-Tjörnum, meðstjórnandi
Sæmundur Jón Jónsson, Árbæ, meðstjórnandi

Á fundinum voru nýjar samþykktir fyrir Auðhumlu svf. staðfestar, en fram hafði farið heildarendurskoðun þeirra í aðdraganda aðalfundar. Aðalfundi Auðhumlu svf. lauk svo á áttunda tímanum. Fundinn sóttu þegar mest var tæplega 90 manns en fulltrúar með atkvæðisrétt voru 55.

Garðar Eiríksson, framkvæmdastjóri

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242