26. október 2007

Framkvæmdagleði og bjartsýni hjá mjólkurframleiðendum á Norðurlandi

“Það er geysileg vakning hjá mjólkurframleiðendum á svæði MS Akureyri í framkvæmdum, bæði byggingum á nýjum fjósum eða öðrum viðamiklum breytingum á framleiðsluaðstöðu á búunum. Mér finnst einkennandi bjartsýni hjá bændum um þessar mundir, margt ungt og bjartsýnt fólk að fjárfesta og byggja upp á búum sínum. Við getum þess vegna ekki annað en horft björtum augum á framtíðina,” segir Kristján Gunnarsson, mjólkureftirlitsmaður hjá MS Akureyri, um framkvæmdir hjá bændum á svæði samlagsins um þessar mundir. Nú eru sex ný fjós í byggingu á samlagssvæðinu og á þremur bæjum til viðbótar standa yfir breytingar á aðstöðu, viðbyggingar eða innréttingar á hlöðum áföstum fjósum. Óhætt er að segja að mikil umskipti hafi orðið í greininni á fáum árum en á tímabili heyrðu framkvæmdir sem þessar nánast til undantekninga.


“Þörfin fyrir endurnýjun var sannarlega komin en mér finnst mest um vert að finna þann kraft og þor sem nú er meðal bænda. Skýringin liggur að hluta í því að kvóti hefur verið að aukast, gott verð hefur fengist fyrir umframmjólk og síðan hefur verðmæti jarða verið að aukast og veðhæfni þeirra þar með. Svigrúmið til framkvæmda er þannig meira en var fyrir nokkrum árum,” segir Kristján en til viðbótar þeim fjósum sem nú eru í byggingu var fyrir skömmu tekið í notkun nýtt fjós í Garði í  Eyjafjarðarsveit sem er stærsta fjós landsins. Fyrsti hringekjubás landsins er stuttu kominn í gagnið á stórbúinu Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit  og fleira framkvæmdaverkefni mætti nefna á síðustu árum.
“Staðreyndin er sú að búin eru að stækka og ungt fólk sér að það dugar ekkert minna en 2-300 þúsund lítrar í framleiðslurétti til að búin séu vel lífvænleg. Margir eru því að stækka við sig og meðalbú á okkar svæði ræður nú yfir um 170-180 lítra framleiðslurétti. Þessi tala hefur hækkað hratt síðustu árin og meðalbúið mun halda áfram að stækka á komandi árum,” segir Kristján.


Rauði þráðurinn í framkvæmdum hjá mjólkurframleiðendum er tæknivæðing og sjálfvirkni. Kristján segir að um helmingur þeirra sem byggja ný fjós í dag velji sjálfvirka mjaltaþjóna. Aðrir stóra mjaltabása með tilheyrandi sjálfvirkni. “Mjaltaþjónarnir verða betri með hverju árinu sem líður þannig að þróunin er ör. Sú lausn hentar mörgum en hefðbundnir mjaltabásar öðrum. Allt skilar þetta betri framleiðsluaðstöðu og skilar sér í gæðum framleiðslunnar. En fyrst og fremst er mjög ánægjulegt fylgjast með þróuninni og finna að það er mikill kraftur í mjólkurframleiðendum,” segir Kristján Gunnarsson.

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242