6. mars 2008

Áttatíu ár frá því mjólkurvinnsla hófst á Akureyri

MS Akureyri fagnar tímamótum


Í dag, 6. mars, eru tímamót í atvinnusögu Akureyrar en liðin eru 80 ár frá því mjólkurvinnsla hófst í bænum. Þennan dag fyrir 80 árum var tekið á móti mjólk í fyrsta skipti hjá Mjólkursamlagi Kaupfélags Eyfirðinga en vinnslan var til húsa við Grófargil, þar sem nú er veitingastaðurinn Friðrik V. MS Akureyri mun sérstaklega fagna þessum tímamótum síðar á árinu en í tilefni dagsins var starfsfólki fyrirtækisins boðið upp á afmælistertu í morgunkaffinu í morgun.

Farsæld í mjólkurvinnslu á Akureyri
Sigurður Rúnar Friðjónsson, samlagsstjóri MS Akureyri, segir óhætt að tala um mikla farsæld í mjólkurvinnslu á Akureyri þessa átta áratugi.
„Grunnurinn hefur auðvitað alltaf falist í öflugum framleiðendum hér á svæðinu og gæðum mjólkur sem frá þeim hefur komið. Síðan hefur samlagið á Akureyri ávallt verið framsækið í vöruþróun og margar þjóðþekktar mjólkurvörur komið héðan. Þar ber að nefna sérstaklega ostana, smjörið og ekki síst skyrið. Okkar markmið er sem fyrr að sækja fram með nýjungar og vöruþróun og munum einmitt kynna ýmsar nýjar vörur á komandi mánuðum,“ segir Sigurður Rúnar.

1600 lítrar fyrsta daginn en 105 þúsund lítrar nú !
Til gamans má þess geta að fyrsta vinnsludaginn fyrir 80 árum var tekið á móti 1600 lítrum af mjólk til vinnslu hjá samlaginu, sem þótti nokkuð mikið og umfram væntingar. Í dag tekur MS Akureyri við um 105 þúsund lítrum að jafnaði daglega og á síðasta ári var slegið met þegar innvegin mjólk hjá samlaginu nam tæplega 32 milljónum lítra. 

Sex af hverjum tíu ostum frá Akureyri
MS Akureyri hefur sérstöðu hér á landi í framleiðslu á ostum. Vörulína fyrirtækisins telur í heild um 60 framleiðslunúmer og er ostaframleiðslan þungamiðjan. Um 60% osta sem neytt er hérlendis koma frá MS Akureyri. Vöruþróun í ostagerðinni og fjölbreytileiki í vöruframboði hafa skilað fyrirtækinu þessari miklu markaðshlutdeild og er stöðugt unnið að þróun nýrra vörutegunda.
Þá dreifir MS Akureyri ferskmjólk á Eyjafjarðarsvæðið og í Þingeyjarsýslur og með vorinu einnig á Austurland.

„Smurostaframleiðsla MS var flutt hingað til Akureyrar fyrir skömmu og er þessa dagana að fara á fulla ferð hjá okkur. Og eins og áður segir eru frekari nýjungar í starfseminni í farvatninu á afmælisárinu þannig að 80 ára afmælisárið verður ekki síður viðburðaríkt í mjólkurframleiðslu á Akureyri en það fyrsta,“ segir Sigurður Rúnar Friðjónsson, mjólkursamlagsstjóri MS Akureyri.

Feril mjólkurvinnslu á Akureyri í 80 ár má nálgast á pdf formi hér

Ljósmyndin sem hér fylgir var tekin í morgun þegar starfsfólk MS Akureyri gæddi sér á afmælistertu í tilefni dagsins.


 

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242