15. júlí 2011

Viðskiptaskilmálar Auðhumlu svf.

Stjórn Auðhumlu hefur á fundi sínum 4. júlí sl. samþykkt eftirfarandi viðskiptaskilmála vegna kaupa á hrámjólk frá framleiðendum.

Reykjavík 12. júlí 2011
 
Viðskiptaskilmálar Auðhumlu svf.vegna mjólkurkaupa
 
 
Neðangreinda viðskiptaskilmála samþykkti stjórn Auðhumlu svf. (í skilmálunum nefnd kaupandi) að gera á fundi sínum 4. júlí 2011  vegna kaupa á mjólk frá bændum (í skilmálunum nefndir seljandi/seljendur). 
Skilmálarnir eru  settir með hliðsjón af X. kafla laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulög), um greiðslumark og meðferð á umframmjólk, með hliðsjón af ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005 og með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. Skilmálarnir hafa verið kynntir framkvæmdanefnd búvörusamninga, verðlagsnefnd búvöru, Matvælastofnun og Samkeppniseftirlitinu.
Skilmálarnir taka gildi frá og með 1. ágúst 2011 enda hafi þeir þá verið sendir öllum framleiðendum (seljendum) mjólkur sem leggja inn hjá Auðhumlu svf. Seljendur hafa fjórar (4) vikur til að hafna skilmálunum og segja sig frá viðskiptum með skriflegum hætti. Geri þeir það ekki er litið svo á að skilmálarnir hafi verið samþykktir. Skilmálunum er ætlað að skýra réttindi og skyldur seljenda og kaupanda mjólkur með hliðsjón af framangreindum lögum.  Í flestu endurspegla þeir það vinnulag sem nú er á söfnun, gæðamælingum, eftirliti og þjónustu við framleiðendur.
 
1.   Upphaf viðskipta og gildistími skuldbindinga
 
Auðhumla svf. (kaupandi) er samvinnufélag mjólkurframleiðenda og er í samræmi við þessa viðskiptaskilmála reiðubúið að taka á móti mjólk frá öllum framleiðendum á Íslandi sem starfa í samræmi við framangreind lög hvort sem þeir eru félagar í Auðhumlu svf. eða ekki. Skuldbindingar kaupanda gagnvart seljendum eru til eins árs í senn og miðast við áramót. Það er í samræmi við greiðslumarksákvörðun landbúnaðarráðuneytisins (ráðherra)  sem er til eins árs í senn og miðast við áramót. Þar sem þessir skilmálar eru settir á miðju ári (1. ágúst 2011) gildir skuldbinding þessi fyrst til áramóta 2011/2012. Í árslok 2011 framlengist viðskiptasamband seljanda og Auðhumlu svf. sjálfkrafa, þ.m.t. viðskiptaskilmálar þessir, nema þeim sé sagt upp með fjögurra (4) vikna fyrirvara og síðan um hver áramót með sama hætti. Uppsögnin skal vera skrifleg og miðast við áramót.
 
Seljandi getur sagt upp viðskiptum skriflega innan greiðslumarksársins með átta (8) vikna fyrirvara. Óski hann eftir að taka upp viðskipti við kaupanda að nýju innan þess sama greiðslumarksárs skal hann óska eftir slíkum viðskiptum skriflega með átta (8) vikna fyrirvara. Það er á valdi kaupanda að taka ákvörðun um hvort viðskipti verða þá tekin upp. Á seljanda hvílir að færa sönnur á að hann hafi afsett/selt þá mjólk sem hann hefur framleitt á greiðslumarksárinu í samræmi við ákvæði búvörulaga og að hann hafi tilskilin leyfi til starfsemi sinnar. Í aðdraganda þess að viðskipti verða tekin upp að nýju skal kaupandi, á framangreindu átta (8) vikna tímabili, hafa aðgang að mjólkurtönkum seljanda hvenær sem er til gæðamælinga og eftirlits, einkum með það í huga að fyrsta mjólk sem vigtuð verði inn standist gæðamælingar og ákvæði laga og reglugerða um aldur mjólkur sem er vigtuð inn.
 
2.   Framleiðslan sem samningurinn nær til
 
Innan greiðslumarksársins, eða á meðan viðskiptasamband aðila og skilmálar þessir eru í gildi, er kaupandi skuldbundinn til að taka á móti allri mjólk seljanda (greiðslumarksmjólk og umframmjólk) og seljandinn er skuldbundinn til að afhenda kaupanda alla framleiðslu sína, fyrir utan það sem hann tekur til eigin nota á heimili sínu og það sem lög heimila að sé unnið í svokallaðri heimavinnslu. Þetta er nauðsynlegt til að afstemming á greiðslumarki og umframmjólk sé í samræmi við ákvæði búvörulaga, til að kaupandi geti skipulagt mjólkursöfnun og flutninga með hagkvæmasta hætti og til þess að kaupandi geti sinnt gæðaeftirliti með mjólk. Verði breytingar á magni mjólkur sem seljandi afhendir kaupanda milli söfnunardaga, sem ekki verða útskýrðar með eðlilegum sveiflum í framleiðslu, getur kaupandi óskað skýringa frá seljanda. Ef kaupandi telur að seljandi fari ekki að skilmálum viðskiptanna um afhendingu mjólkur eða grípi til málamyndagerninga sem  ætla megi að séu til þess gerðir að fara á svig við ákvæði búvörulaga getur kaupandi sagt upp viðskiptum við seljanda skriflega með fjögurra (4) vikna fyrirvara.
 
3.   Verð og greiðsluskilmálar
 
Kaupandi greiðir seljanda fyrir greiðslumarksmjólk a.m.k. í samræmi við ákvarðanir verðlagsnefndar búvöru um lágmarksafurðastöðvaverð og byggja greiðslur á þurrefnishlutföllum í mjólk. Þó er heimilt að víkja frá því í samræmi við opinberar reglur landbúnaðarráðuneytisins um gæðaviðmið og verðfellingar mjókur (nú reglur nr.52/2010).  Fyrir umframmjólk, sem flytja ber á erlendan markað, sbr. 3. mgr. 52. gr. búvörulaga, greiðir kaupandi verð pr.lítra mjólkur sem endurspeglar afkomu af afsetningu mjólkurinnar á erlendum markaði.
 
Kaupanda er heimilt að greiða gæðaálag fyrir úrvalsmjólk sem kemur til viðbótar því markaðsverði sem greitt er hverju sinni. Nú er þetta álag 2% af lágmarksverði.
 
Greiðsla fyrir mjólk skal lögð inn á bankareikning seljanda 10. hvers mánaðar eða næsta virka dag þar á eftir ef 10. dagur mánaðar fellur á helgi eða frídag vegna innleggs mánaðarins þar á undan. Bankareikningur er tilgreindur af hálfu seljanda.
 
 
4.   Dagsetningar mjólkursöfnunar
 
Kaupandi sækir mjólk til seljanda samkvæmt dagskrá sem kaupandi birtir fyrir hvert söfnunarsvæði. Skipulag mjólkursöfnunar er miðað við að ná fram hámarkshagkvæmni.
 
Frávik frá söfnunardagskrá geta orðið að frumkvæði kaupanda eða seljanda af ástæðum sem rekja má til veðurs og ófærðar, sjúkdóma eða af öðrum ófyrirsjáanlegum ytri aðstæðum. Skal þá sá aðili sem óskar frávika gera hinum grein fyrir orsökum eins fljótt og verða má. Verði söfnunardagskrá breytt að ósk kaupanda þannig að safnað verði á öðrum dögum eða öðrum tímum en fram kemur í dagskrá söfnunarsvæða skal kaupandi gera seljanda grein fyrir slíkum breytingum skriflega með hæfilegum og sanngjörnum fyrirvara. Komi fram ósk frá seljanda um breytingar á söfnunardagskrá ræðst það af heildarhagkvæmni mjólkursöfnunar hvort unnt er að verða við slíkri ósk. Kaupandi skal gera seljanda grein fyrir viðbrögðum við slíkum óskum eftir hæfilegan og sanngjarnan frest en þó ekki síðar en 4 vikum, frá því að beiðni berst.
 
5.   Starfsleyfi seljanda
Viðskipti með mjólk milli kaupanda og seljanda eru háð því að seljandi hafi fengið mjólkursöluleyfi frá Matvælastofnun og standist ákvæði 13. gr. í reglugerð nr. 438/2002 um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra.

6.   Greiðslumark og umframmjólk
 
Seljandi skal færa sönnur á það greiðslumark sem hann hefur til starfsemi sinnar, gefur kaupanda aðgang að upplýsingum hjá Matvælastofnun um greiðslumark sitt og lætur kaupanda vita skriflega um allar breytingar á greiðslumarki sínu innan fjögurra (4) vikna frá greiðslumarkskaupum eða sölu. Kaupandi og seljandi fylgja ákvæðum búvörulaga um útflutning umframmjólkurframleiðslu (mjólk framleidd utan greiðslumarks). Það felur í sér að við lok greiðslumarksárs tekur framkvæmdanefnd búvörulaga saman heildargreiðslumarkssöluna í landinu. Nefndin ákvarðar hvort allir greiðslumarkshafar hafi framleitt í samræmi við greiðslumark sitt. Ef svo er ekki skilgreinir nefndin hve mikið vannýtt greiðslumark í landinu er. Því er þá deilt út á greiðslumarkshafa sem framleitt hafa umframmjólk innan greiðslumarksársins og fyrir hluta þeirrar framleiðslu er greitt fullt greiðslumarksverð.  Þetta er í samræmi við gildandi reglugerð um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda fyrir hvert verðlagsár.  Kaupandi skal hafa aðgang að upplýsingum um alla framleiðslu seljanda innan greiðslumarksársins og ráðstöfun hennar til að geta framfylgt þessum ákvæðum búvörulaga.
 
7.   Gæðamælingar og ábyrgð
 
 
Kaupandi hefur eftirlit með gæðum mjólkur frá seljanda með almennu eftirliti og staðfestingu á aldri mjólkur í tönkum sem byggir á að framfylgt sé söfnunardagskrá. Kaupandi gerir að auki mælingar á gæðum mjólkur frá seljanda með sýnatöku í samræmi við reglugerð nr. 919/2002 um mjólk og mjólkurvörur með síðari breytingum, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, auk áorðinna breytinga og reglum verðlagsnefndar búvara nr. 52/2010 um flokkun og verðfellingar mjólkur vegna líftölu, frumutölu, lyfjaleifa og frírra fitusýra.
Kaupandi getur hafnað innihaldi mjólkurtanks sem ekki er í samræmi við þær gæðakröfur sem gerðar eru hverju sinni og lögum samkvæmt. Kaupandi gerir seljanda þegar í stað grein fyrir ákvörðunum af því tagi. Hafi kaupandi hafnað mjólk vegna þess að hún nær ekki settum gæðamörkum þrisvar sinnum innan eins (1) mánaðar er honum heimilt að hætta viðskiptum við seljanda með 4 vikna fyrirvara.
Bæði kaupandi og seljandi geta fyrir sitt leyti slitið viðskiptasambandi aðila með fjögurra (4) vikna skriflegum uppsagnarfresti ef gagnaðili verður fyrir rekstrarstöðvun eða er af fjárhagslegum ástæðum ófær um að standa við skilmála þessa.
 
 
8.   Aðgengi að afhendingarstað mjólkur og aðstaða
 
Kaupandi hyggst setja almennar reglur um aðgengi að mjólkurhúsi og mjólkurtönkum. Þessar reglur verða unnar í samráði við seljendur, en fyrirhugað er að kynna þær formlega árið 2012.
 
 
 
 
9.   Flutningskostnaður
 
Kostnaður vegna mjólkurflutninga fellur á seljanda. Honum er jafnað út þannig að allir seljendur greiða sama verð fyrir mjólkurflutninga pr.lítra. Kaupandi hyggst beita sér fyrir því að breyting verði gerð þannig að hann kaupi mjólk við fjósvegg hvers og eins. 
 
10.Eignarhald og ábyrgð á framleiðslu
 
Kaupandi ber ábyrgð á mjólk seljanda um leið og hún er komin um borð í flutningatæki að uppfylltum skilyrðum sem sett eru fram í gr. 7.
 
11.Fyrirvarar, athugasemdir og uppsagnir og breytingar á skilmálunum
 
Alla fyrirvara, athugasemdir eða uppsagnir viðskiptasambands seljanda og kaupanda skal gera skriflega og í ábyrgðarpósti með tilskildum fyrirvara. 
Skilmálar þessir eru sendir öllum núverandi viðskiptamönnum Auðhumlu svf. og birtir á heimasíðu félagisns þar sem þeir verða uppfærðir. Breytingar verða einnig kynntar sérstaklega þeim aðilum sem getið var í inngangi skilmálanna.
 
12.Atburðir utan áhrifavalds
 
Hvorki seljandi né kaupandi er talinn hafa brotið viðskiptaskilmála þessa ef aðstæður sem eru utan áhrifavalds þeirra (force majeure) hindra þá í að uppfylla skilmála þessa. Ef annar hvor aðili viðskiptanna getur ekki vegna þessa uppfyllt skilmálana lengur en sem nemur 28 dögum getur hvor fyrir sig sagt upp viðskiptum fyrirvaralaust en skriflega. Ef slík rekstrarstöðvun verður þrisvar eða oftar á sex (6) mánaða tímabili getur hvor aðili fyrir sig sagt upp viðskiptum með þriggja (3) mánaða fyrirvara.
13.Breytingar á skilmálunum
Stjórn Auðhumlu svf. getur ákveðið breytingar á viðskiptaskilmálum. Gera skal seljendum grein fyrir slíkum breytingum með 4 vikna fyrirvara og birta upplýsingar um breytingarnar á heimasíðu félagsins. Þó má víkja frá þessum fyrirvara ef sérstakar knýjandi ástæður eru fyrir hendi.

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242