31. janúar 2008

Uppbyggingin í Stærri-Árskógi á undan áætlun

„Ef eitthvað er þá erum við örlítið á undan áætlun en markmiðið var að hefja framleiðslu að nýju nú í febrúar. Það mun takast. Þá áætlum við að hafa lokið um 35% af uppbyggingunni eftir brunann, hvort heldur litið er til kostnaðar eða verkþátta,“ segir Guðmundur Geir Jónsson, bóndi í Stærra-Árskógi í Dalvíkurbyggð en sem kunnugt er varð stórbruni á búinu þann 17. nóvember síðastliðinn. Öll útihús brunnu og nær allur bústofn drapst í eldinum. Á búinu voru um 200 nautgripir og um 340 þúsund lítra ársframleiðsla af mjólk.

Strax eftir brunann ákváðu ábúendurnir í Stærra-Árskógi,  Guðmundur Geir og Freydís Inga Bóasdóttir, að ráðast í uppbyggingu en meðal þess sem brann var nýbyggt fjós með sjálfvirkum mjaltaþjóni. Það fjós var áföst öðru eldra og hlöðu. Mestu skipti að ráðast strax í að koma mjaltaaðstöðu upp þannig að unnt sé að hefja framleiðslu. Samskonar stálgrindarfjós hefur nú risið á grunni þess sem brann og þessa dagana er unnið við innréttingar, frágang mjaltaþjóns og fleirri þátta innanhúss.

„Það gekk mjög vel að fá mannskap til að vinna við uppbygginguna, fjósið fékkst framleitt strax og þannig hafa allir tekið okkur vel sem til hefur verið leitað. Við erum þakklát fyrir það,“ segir Guðmundur Geir og hlakkar til þeirrar stundar þegar fyrstu gripirnir koma í hús á ný.

Freydís Inga Bóasdóttir og Guðmundur Geir Jónsson, ásamt dóttur sinni Bríeti Unu við mjaltaþjóninn í nýja fjósinu. Allt stefnir í að innan við þremur mánuðum eftir brunann í Stærra-Árskógi verði mjólkurframleiðsla hafin þar á ný


„Við vorum með að jafnaði 60-65 mjólkurkýr og í allt á bilinu 200-220 hausa þegar öll geldneyti voru talin. Ég er þessa dagana að útfæra þá aðstöðu sem ég á eftir að byggja upp en ég reikna með að þegar uppbyggingunni verður lokið þá verði aðstaða fyrir álíka gripafjölda og áður,“ segir Guðmundur en haughús eldra fjóssins er nærfellt það eina sem nýtanlegt verður af því húsi.

Alls komust 34 kvígur úr húsunum í brunanum og hluti þeirra mun bera nú í febrúar og fara gripirnir því beint inn í nýja húsið. Frá því bruninn varð hafa þeir verið á húsum á næsta bæ, Kálfsskinni. Mikil viðbrögð komu frá bændum víðs vegar um landið í kjölfar brunans og vildu margir leggja ábúendunum í Stærra-Árskógi til gripi sem auðveldað gæti þeim að hefja framleiðslu á nýjan leik. Starfsmenn MS á Akureyri og Búgarðs, með þá Kristján Gunnarsson, mjólkureftirlitsmann og Guðmund Steindórsson, ráðuaut,  fremsta í flokki, höfðu veg og vanda af því að leita til bænda og afla loforða fyrir gripum. Fljótt safnaðist á listann, allt frá mjólkurkúm niður í smákálfa en gripina munu ábúendur í Stærri-Árskógi fá í hendur eftir því sem uppbyggingunni vindur fram. Guðmundur Geir segir að starfsmenn MS á Akureyri eigi miklar þakkir skildar fyrir alla þá vinnu sem þeir hafi lagt á sig til hjálpar og mikils virði sé að finna þann stuðning sem birtist í þessu, fjölda símtala sem þau hafi fengið, gjöfum og hvatningarorðum.
„Ég hef fengið fjölda símtala frá fólki sem hvatt hefur okkur áfram, fólki t.d. á höfuðborgarsvæðinu sem við þekkjum ekkert til. Þetta er okkur mikils virði,“ segir Guðmundur Geir og uppljóstrar að kvígukálf hafi þau fengið í jólagjöf frá skyldmennum á Bakka í Svarfaðardal en kálfurinn fæddist nokkrum dögum eftir brunann. Kvígan sú fékk nafnið Engilráð en það er nafn ömmu Guðmundar Geirs og gefandans, Þórs Ingvasonar á Bakka. „Mér þótti virkilega vænt um þetta og örugglega eru ekki margar kýr hér á landi með þessu nafni,“ segir Guðmundur.


Framleiðslan á hvern grip í fjósinu í Stærra-Árskógi hafði farið nokkuð vaxandi síðustu mánuðina fyrir brunann og því mikið áfall að missa skepnurnar sem svo mikil vinna hafði verið lögð í að rækta upp. Guðmundur Geir segir það verða nokkuð sérkennilegt þegar saman verði kominn kúahópur úr ólíkum áttum. „Ég er búinn að fá í hendur lista yfir gripi sem við munum fá og ég geri ráð fyrir að þeim fylgi upplýsingar um ætterni. Sjálfur hef ég nú aldrei verið góður í ættfræði hvað sjálfan mig varðar en til muna betri í kúaættum þannig að ég þarf að læra mikið um bakgrunn gripanna þegar þar að kemur. Það kemur allt með tíð og tíma,“ segir Guðmundur.


Hönnun þeirra mannvirkja sem eftir er að byggja í Stærri-Árskógi stendur nú yfir. Að henni lokinni hefjast framkvæmdir við síðari hluta framkvæmdanna. Markmiðið er að húsin verði tilbúin í haust þannig að öll nauðsynleg mannvirki verði til staðar þegar vetur gengur að nýju í garð.

Stærstur hluti innréttinga í nýja fjósinu er þegar kominn upp en framkvæmdir hafa gengið framar vonum


Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242