15.11.2007Menntamálaráðherra opnar ljóðavef Jónasar Hallgrímssonar

Við athöfnina afhenti Guðbrandur Sigurðsson forstjóri Mjólkursamsölunnar menntamálráðherra fyrsta veggspjaldið.
Veggspjaldið með Jónasi er þriðja veggspjaldið sem Mjólkursamsalan gefur út undir merkjum átaksins Íslenska er okkar mál. Hið fyrsta kom út árið 1996, þar sem andlit Jóns Sigurðssonar var sett saman úr ljósmyndum af Íslendingum. Árið 2002, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness, kom annað veggspjaldið út þar sem andlit Halldórs birtist gegnum tilvitnanir í íslensk bókmenntaverk. Með þessu þriðja veggspjaldi hefur MS dregið fram hina sönnu þrenningu íslenskrar menningar: land, þjóð og tungu.
Jónas Hallgrímsson er ástsælasta ljóðskáld Íslendinga og með orðsnilld sinni, þekkingu og ást á íslenskri náttúru kenndi hann þjóðinni að meta landið á alveg nýjan hátt í gegnum ljóð sín. Veggspjaldið samanstendur af 816 ljósmyndum úr íslenskri náttúru sem mynda í sameiningu andlit Jónasar. Má það teljast afar viðeigandi í ljósi þess hvað íslensk náttúra var Jónasi alla tíð kær og fáir hafa lýst henni betur.
Slóðin inn á vefinn er www.jonas.ms.is