8. apríl 2022

Nýtt verð fyrir umframmjólk 2022 og kaup á fituhluta birgða umframmjólkur frá 2021

Af stöðu mjólkurframleiðslu og kaupum á umframmjólk         8. apríl 2022

 

Eins og ljóst er var samanlögð mjólkurframleiðsla fyrstu fimm vikur ársins nánast jöfn framleiðslu sama tímabils síðasta árs. Í annarri viku febrúar fór mjólkur-framleiðslan að dragast saman og virðist vera komin í nokkuð fastar skorður.   Eins og fram kom á nýafstöðnum deildarfundum Auðhumlu, í mars mánuði sl., var gefið út að stjórn Auðhumlu myndi koma saman, að þeim loknum, og fara yfir stöðu og horfur í framleiðslumálum mjólkur. Fram kom að stjórnin myndi fylgjast grannt með þróun mála í framleiðslu mjólkur og taka ákvörðun um aðgerðir vegna stöðunnar telji hún ástæðu til.  Nú hafa fundir verið haldnir bæði í stjórn Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar vegna stöðunnar og eftirfarandi niðurstaða liggur fyrir. 

 

Komið hefur í ljós að ekki er að sjá að á undanförnu hafi orðið breyting til aukningar í vikulegri mjólkurframleiðslu í landinu m.v. sama tíma síðasta árs.  Því hefur stjórnin ákveðið að grípa til eftirfarandi aðgerða, bæði til að tryggja birgðir í landinu til skemmri tíma og til örvunar í mjólkurframleiðslu undir þeim erfiðu fjárhagslegu kringumstæðum sem ríkja m.a. vegna stríðsástands í hluta Evrópu.  Það ástand hefur leitt til þrenginga á framboði á ýmsum hrávörum og hækkandi aðfangverði s.s. korni, áburði, olíu og öðrum rekstrarvörum.

 

Eftirfarandi eru þær aðgerðir sem stjórn hefur ákveðið að hrinda í framkvæmd  og kynntar eru hér – en auk þess aðrar ákvarðanir sem hafa og munu hafa áhrif á tekjur mjólkurframleiðenda.

 

Kaup á umframmjólk verðlagsársins 2021

Samkvæmt beingreiðsluppgjöri ríkisins frá 17. febrúar sl. nam samanlögð umframmjólk verðlagsársins 2021 samtals 3.858.857 lítrum sem skiptist á félagssvæði Auðhumlu og Kaupfélags Skagfirðinga.  Stjórn Auðhumlu og MS hafa tekið ákvörðun um að kaupa þessa mjólk og halda fituhlutanum í birgðum í landinu.  Próteinhlutinn verður fluttur út þar sem ekki er unnt að afsetja hann innanlands.  Fyrir mjólkina verða greiddar 70 kr/ltr sem byggir á fullu lágmarksverði fituhluta ásamt útflutningsverði á próteini á heimsmarkaði.  Þegar hafa verið greiddar um 25 kr/ltr fyrir umframmjólk verðlagsársins 2021 og verða því nú greiddar 45 kr/ltr til viðbótar, en greiðsla fer fram svo fljótt sem unnt er. Sem fyrr segir mun því samanlögð greiðsla nema (25+45) 70 kr/ltr.  Aðrar forsendur greiðslu fyrir umframmjólkina byggja á lögfræðilegri greinargerð frá júní 2018 sem unnin var skv. beiðni Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM).

 

Kaup á umframmjólk sem framleidd verður á yfirstandandi verðlagsári 2022

Stjórn Auðhumlu hefur auk þess ákveðið að kaupa alla umframmjólk á yfirstandandi verðlagsári 2022 á 70 kr/ltr.  Jafnframt mun á vegum stjórna Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar verða fylgst grannt með þróun heims-markaðsverðs mjólkurvara o.fl. á komandi vikum og mánuðum og verði tilefni og grundvöllur til mun stjórn endurskoða verð umframmjólkur frekar.

 

 

Aðrar tekjuforsendur kúabænda vegna mjólkurviðskipta

 

Lokauppgjör útflutnings á umframmjólk ársins 2020

Á deildarfundum var gerð grein fyrir því að útflutningi á umframmjólk verðlagsársins 2020 (6,19 millj. ltr) væri lokið, en útflutningur hafði dregist umtalsvert þar sem markaðir voru erfiðir  vegna COVID – faraldurs.  En að loknum þeim útflutningi fór fram fullnaðaruppgjör vegna umframmjólkur verðlagsársins 2020.  Niðurstaðan varð, eins og kynnt var á deildarfundum Auðhumlu, að greidd yrði uppbót sem nemur 5,5 kr/ltr umframmjólkur ársins 2020. 

 

Stefnt er á að þessi uppbót verði greidd út samhliða uppgjöri á marsinnleggi mjólkur þ. 11 apríl nk.

 

Breyting á lágmarksverði mjólkur 1. apríl

Rétt er að vekja athygli á því að Verðlagsnefnd búvara tók ákvörðun á fundi sínum í lok mars mánaðar sl. að lágmarksverð til bænda skyldi hækka um 6,73 kr/ltr eða úr 104.96 í 111,89 kr/ltr.  Þetta samsvarar um 6,6% hækkun.

Samkvæmt ákvörðunum stjórna

Auðhumlu svf. og Mjólkursamsölunnar ehf.

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242