8. nóvember 2007

Heilfóðrun mjólkurkúa gefst vel

Heilfóðrun er tækni sem víða er að ryðja sér rúms í sveitum landsins. Um er að ræða blöndun á heyi, kjarnfóðri, steinefnum, vökva og gjarnan korni í fínsaxað mauk og er þetta gert í sérstökum vögnum og fóðrið síðan gefið vélrænt. Geir Árdal í Dæli í Fnjóskadal og Trausti Þórisson á Hofsá í Svarfaðardal hafa verið með þessa tækni á búum sínum um skeið og telja að reynslan sanni að heilbrigði kúnna hafi aukist, kálfadauði minnkað og kostnaður vegna dýralækninga minnkað verulega.
“Ég tók þessa tækni í gagnið fyrir ári síðan og reynslan hingað til er mjög góð,” segir Geir Árdal. Hann segir eitt af mikilvægustu atriðunum að fóðrun verði betri á geldstöðutímanum og það skili sér á mjólkurskeiði kúnna. “Mér finnst geldstöðufóðrunin greinilega virka mjög vel og sé til dæmis að kálfadauði, sem áður var töluverður, heyrir nánast sögunni til. Kýrnar eru líka hraustari við burð og við tökum eftir að doðaslenið sem gjarnan kom í kjölfar burðar sést varla eftir að við skiptum yfir í heilfóðrunina,” segir Geir.
Að hans mati verður heilfóðrun algengari á íslenskum búum í framtíðinni. “Heilfóðrunin hefur þegar sýnt fram á aukið heilbrigði kúnna og marga aðra þætti. Ég vænti þess að núna förum við að sjá aukningu í nyt, sem auðvitað er einn stærsti ávinningurinn. Núna þurfum við að styðjast við ráðgjöf um fóðurblöndun frá sérfræðingum í Danmörku en ég tel einboðið að slík ráðgjöf byggist upp hér heima eftir því sem heilfóðrunin verður almennari,” segir Geir.
Aðspurður segist Geir telja að vinnan við fóðrun hafi ekki aukist við þessa tæknibreytingu en fóður er blandað annan hvern dag. Í sumar gerði Geir þá tilraun að hýsa kýrnar á næturna og gefa þeim heilfóðurblöndu eftir mjaltir á kvöldin. “Kýrnar hafa ekki verið mjög spenntar fyrir því að fara út eftir kvöldmjaltir og ég ákvað að gera þessa tilraun þar sem ég var kominn með heilfóðurtæknina. Og í stuttu máli fannst mér útkoman af því mjög góð,” segir Geir.
Trausti Þórisson á Hofsá í Svarfaðardal er með um 60 kýr í básafjósi með mjaltabás og geldneyti að auki í fóðrun í fjósinu. Hann tók heilfóðrun í gagnið síðla síðasta vetrar  og segir reynsluna góða. Trausti notar heimaræktað korn í fóðrið, sem og hálm og steinefni, en uppistaðan eru heyrúllur.
“Mjólkurkúrfan er klárlega flatari en hjá kúm með hefðbundinni fóðrun.  Fyrir vikið kemur ekki þessi mikli nyttoppur fljótt eftir burð, sem við þekkjum með hefðbundinni fóðrun. Sá toppur er einmitt það skeið sem margir gripirnir bresta heilsufarslega. Við sjáum því greinileg merki um bætt heilsufar en þurfum lengri tíma til að geta metið hvort nyt á hvern grip eykst með þessari fóðrun,” segir Trausti. Hann tekur undir orð Geirs að vinna við fóðrunina sé áþekk og áður. “Hún er hins vegar öðruvísi og léttari. Í heild sinni hefur heilfóðrunin staðið undir okkar væntingum hingað til,” segir Trausti Þórisson á Hofsá í Svarfaðardal.

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242