26. nóvember 2007

Guðbrandur Sigurðsson hættir sem forstjóri Mjólkursamsölunnar

Guðbrandur Sigurðsson hættir sem forstjóri Mjólkursamsölunnar um næstu áramót en heldur áfram sem forstjóri Auðhumlu. Magnús Ólafsson hefur verið ráðinn forstjóri Mjólkursamsölunnar frá sama tíma.
Mjólkursamsalan ehf. er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins í landinu og tók til starfa þann 1. janúar síðastliðinn. Rekstur félagsins hefur gengið samkvæmt áætlun og kynntar hafa verið breytingar á rekstri og skipulagi félagsins sem eiga að skila því umtalsverðri hagræðingu á næstu tveimur árum til hagsbóta, bæði fyrir neytendur og mjólkurframleiðendur.
Eitt af markmiðunum Auðhumlu er að jafna aðstöðu mjólkurframleiðenda um allt land og tryggja að íslenskur mjólkuriðnaður verði betur í stakk búinn til að mæta samkeppni í framtíðinni. Hlutverk félagsins er að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Félagið er 85% eigandi að Mjólkursamsölunni. Það sinnir margvíslegri fjármálastarfsemi sem tengist ávöxtun á fjármunum félagsins og umsjón með eignarhaldi í öðrum félögum. Félagið annast einnig rekstur fasteigna í öllum landsfjórðungum sem það leigir Mjólkursamsölunni og ýmsum öðrum aðilum. Að auki sinnir Auðhumla margvíslegri starfsemi sem snýr að mjólkurframleiðendum. Að Auðhumlu standa um 700 mjólkurframleiðendur og fjölskyldur þeirra vítt og breitt um landið.
Stjórn Auðhumlu hefur lagt fram drög að stefnumótun fyrir félagið þar sem áhersla er lögð á fjármálastarfsemi og nýsköpun. „Ég tel mikil sóknartækifæri felast í starfsemi Auðhumlu. Þar mun ég leggja áherslu á að sinna vel þörfum félagsmanna og á sama tíma umbreyta efnahag félagsins með það fyrir augum að bæta arðsemi þess og taka virkan þátt í nýsköpun til hagsbóta fyrir félagið og eigendur þess. Þá tel ég að þessi tímapunktur sé eðlilegur til að skipta um starfsvettvang. Flest mál eru komin í góðan farveg hjá Mjólkursamsölunni og traust og gott fólk tekur við stjórnartaumunum þar,” segir Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Auðhumlu.
Magnús Ólafsson var um árabil forstjóri Osta- og smjörsölunnar og síðar aðstoðarforstjóri Mjólkursamsölunnar ehf.  „Miklar breytingar hafa orðið á skipulagi mjólkuriðnaðarins hérlendis á síðustu tveimur árum og mér finnst bæði krefjandi og spennandi að taka við fyrirtækinu á þessum tíma. Starfsfólk Mjólkursamsölunnar um land allt býr yfir yfirburðaþekkingu á mjólkuriðnaðinum og krafti til þess að takast á við krefjandi og verkefni sem eiga að skila sér í lægri framleiðslu- og dreifingarkostnaði á mjólkurvörum til hagsbóta fyrir neytendur,” segir Magnús Ólafsson, verðandi forstjóri Mjólkursamsölunnar.
 
 

Til baka

Auðhumla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Auðhumla hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir sem eru seldar á markaði á Íslandi og erlendis. Það gerir félagið með aðkomu sinni og eign í Mjólkursamsölunni ehf. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar ehf.

Lesa meira

Gæðaráðgjafar

Hans Egilsson: Sími 861-4775

Sigurður Grétarsson: Sími 861-4772

Elin Nolsöe Grethardsdóttir: Sími 892-0397

Steinþór Guðjónsson: Sími 836 4770

RM rannsókn: Sími 450-1242